EFLA í samstarfi við Verbúð Sjávarklasans

03.05.2024

Fréttir
Merki verkefnis.

EFLA er samstarfsaðili Íslenska Sjávarklasans í Verbúð Sjávarklasans. Verbúðin er verkefni sem snýst um að valin fyrirtæki setji fram skilgreindar áskoranir sem þau standa frammi fyrir og leita leiða til að koma fram með lausnir við þeim.

Prófa lausnir í raunheimum

Einstaklingum og teymum sem hafa þróað eða hafa þekkingu til þess að þróa lausnir sem geta leyst áskoranir þessara fyrirtækja gefst tækifæri að sækja um aðild að verkefninu og starfa með fyrirtækjunum að farsælum lausnum. Umsóknarfrestur er 10. maí.

Tilgangur verkefnisins er að búa til vettvang þar sem unnið er með markvissum hætti að því að sannreyna og prófa lausnir frumkvöðla í raun og stuðla að því að lausnir sem verið er að þróa í nýsköpunarumhverfinu geti þjónað atvinnulífinu. Með verkefninu verða auk þess til mikilvægar tengingar og samtal sem vonir standa til að ýti undir aukna verðmætasköpun í bláa hagkerfinu.

Dagskrá verkefnisins er eftirfarandi:

  • 21. maí | Opnunardagur þar sem þátttakendur fá tækifæri til að hitta fyrirtækin. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra opnar daginn.
  • 22. maí | Teymisvinna hefst, þar sem hópar fá aðgengi að sérfræðingum Íslenska sjávarklasans og aðstöðu í Húsi sjávarklasans, Grandagarði 16.
  • 23. maí | Vinnustofur með sérfræðingum.
  • 24. – 28. maí | Teymisvinna.
  • 29. maí | Blue Bio Clusters vinnustofa.
  • 30. maí – 4. júní | Teymisvinna.
  • 3. júní | Endurgjöf sérfræðinga fyrir kynningu.
  • 5. júní | Kynning á niðurstöðum fyrsta fasa.

Hægt er að sækja um og lesa sér nánar til um verkefnið á vefsíðu Íslenska Sjávarklasans.